Hér má lesa rugl eftir mig

30 október 2011

Það er nú ekki einleikið hvað ég hef verið löt að blogga upp á síðkastið... kannski bæti ég úr því á næstunni, lofa þó engu.
Orð dagsins:
Des dess HK
Þýðir: ilmefni, angan
Dæmi: Stúlkurnar úðuðu á sig desi því þær nenntu ekki í bað.

05 febrúar 2011

Farsótt

Þar sem það virðist vera að ganga að blogga, þá get ég alls ekki sleppt því.

Ég var að velta fyrir mér um daginn, er til stofnun sem ekki er leiðinleg? Ég hef hugsað þetta fram og til baka og man hreinlega ekki eftir neinni stofnun sem ekki getur talist leiðinleg. Matvælastofnun, Skipulagsstofnun, Árnastofnun, Námsgagnastofnun.... Magnað.

Jájá og seisei... Það er nú ekki frá mörgu að segja, lífið gengur sinn vana gang sem er á þessum árstíma hálfgerður hægagangur. Lítið um að vera og fátt sem ber til tíðinda. Reyndar er ég nú eins og ýmsir aðrir búin að taka hross á hús og stytta þau mér stundir milli mála. Ég get að vísu ekki boðið fákum mínum upp á jafn glæsileg og nýsmíðuð húsakynni og þær systur í Víðidalstungu en það verður bara að hafa það.

Aldrei slíku vant er snjór. Þetta er nú eiginlega fyrsti snjórinn sem ég sé í vetur í einhverju magni. Hingað til hefur þykkt snjóalaga hlaupið á nokkrum sentimetrum en nú er snjórinn líklega svona 30 cm djúpur - sem sagt; fimbulvetur og harðindi. Ég veit ekki alveg hvernig ég tekst á við þetta ástand, maður er orðinn svo góðu vanur. Auðvitað er best að sitja inni og bíða vors en þar sem það er ekki von á vori alveg á næstunni er líklegt að það gangi illa upp - svona varðandi vinnu og þannig. Líklegast verð ég bara að setja í ,,hörkutólagírinn" og láta mig hafa þetta.

Ég var að lesa bók um daginn sem er svo sem ekki í frásögu færandi nema fyrir þær sakir að mér fannst hún frekar leiðinleg - eða svona pirrandi. Það er sjaldgæft að ég nenni að lesa leiðinlegar bækur frá upphafi til enda en ég lét mig hafa það núna. Ástæðan fyrir því að ég gafst ekki upp var sú að ég trúði því allt til loka bókarinnar að hún ætti eftir að skána. En það gerðist ekki. Bókin þótti mér pirrandi vegna þess að mér fannst aðalpersónan leiðinleg, frek og sjálfselsk kerlingarbeygla. Ég sem sagt trúði því að kerlingaráklan myndi láta af þessum löstum einhverntíman undir lok bókarinnar og sagan þannig fá farsælan endi. En ekki fór það svo, endirinn undirstrikaði raunar bara hversu óborganlega óþolandi leiðinleg aðalpersónan var - að mínu mati allavega. Þetta fékk mig svo til að hugsa hvort það hafi verið tilgangur höfundar að hafa persónuna svona leiðinlega eða hvort að höfundinum þyki ekkert athugavert við að fólk sé eins og þessi aðalpersóna... Vonandi var það vísvitandi gert að hafa persónuna leiðinlega. Fyrir forvitna var þetta bókin Tryggðarpantur eftir Auði Jónsdóttur.

Þegar ég hugsa út í þetta er þetta náttúrulega aðal plottið í bókinni - að hafa kerlinguna leiðinlega út í gegn og þá í rauninni það sem gerir bókina frekar góða - þó maður fatti það ekki fyrr en maður er búinn að hafa það af að lesa hana alla... Magnað

Jæja gott í bili.

Orð dagsins: fannaket
Orðið þýðir: kjöt af sauðfé sem hefur fennt eða króknað
Dæmi: Boðið var upp á fannaket af villfé á þorrablótinu

27 nóvember 2010

Aðventan alveg að detta inn

Gott kvöld
Það er ógurlega langt síðan ég skrifaði hér inn síðast. Ég gæti eflaust sagt frá allskyns sem hefur komið fyrir mig síðan síðast - t.a.m. öllum þeim spennandi verkefnum sem ég vann í sumar eða kynnum mínum af kúm núna í haust. Ég er samt að hugsa um að sleppa þessu öllu og segja frekar frá högum mínum. Ég er svo sem ekki viss um að það langi nokkrun mann sérstaklega að vita þetta en mér er nokk sama.

Sem sagt. Ég bý í Reykholti í Biskupstungum með ástmanni mínum, honum Mads. Við búum í ekkert voða gömlu parhúsi sem er frekar ljótt og hefði mátt vanda betur (ekki járn á þaki heldur tjörupappi, ómáluð timburklæðning, illa flísalagt og fleira skemmtilegt). EN þægileg leiga og staður að búa á.
Mads - kynþokkafullur að vanda

Inngangur híbýla okkar í Kistuholti 4

Bæði vinnum við hjúin á sveitabæjum við að mjólka kýr og fleira. Mads vinnur í Bræðratungu, stórbýlinu sem kemur við sögu í Íslandsklukkunni. Þess má geta að húsbóndinn þar í dag er ekki eins drykkfelldur og Magnús bóndi í sögunni. Eins og dönskum fjósameistara sæmir vinnur hann með flókna tækni, mjaltaróbót af DeLaval-gerð og kýrnar eru rúmlega 70. Einnig eru hross og sauðfé á bænum en Mads sinnir þeim peningi minna.
Ég vinn í Gýgjarhólskoti sem hvergi hefur komið við sögu í bók svo ég viti. Þar er mjaltabás og rúmlega 40 kýr og svona 350 kindur. Þessa dagana er litlu öðru að sinna en fjósverkum og heygjöf sauðfjár (sem afi sinnir alfarið). Þar sem ég nenni ekki að vakna ógeðslega snemma (morgunmjaltir) til að keyra í vinnuna þá er ég þar dag og nótt virka daga en fer heim um helgar.
Delaval majaltaróbot eitthvað líkur þeim sem Mads vinnur með

SAC mjaltakross - svipaður og ég nota

Um helgar gerum við fátt, Mads fer að vísu alltaf aðeins í vinnuna til að sinna kúnum en er heima mestan part dagsins. Stundum er þó eitthvað sem þarf að gera heima í Arnarholti eða einhver sem þarf að heimsækja eins og gengur.
Þar sem við höfum bæði áhuga á búskap eigum við dálítið af búfé. Mads á heilmarga fugla af nokkrum sortum og fáeinar feldkanínur sem hann heldur í Bræðratungu. Hann á hænur, íslenskar og nokkrar aðrar sortir, endur, gæsir og dverghænur. Hann langar í grís en veturinn er ekki besti tíminn til að vera með smágrís. Við eigum nokkra hesta eða ég á 4, Mads á einn. Svo eru einar 5 kindur í okkar nafni í Arnarholti. Ekki má gleyma Krumma, aðal félaga Mads, sem er hundur af Boxertegund.Íslenskar hænur, að vísu gömul mynd þessi hani (Dóri) er t.d. dauður

Endurnar Silja og Doddi

Kanínur, veit ekki hverjar þeirra þetta eru - sennilega Helga og Mæja
Freyja hans Mads

Spesía Sparisjóðsdóttir, fædd 2010
Gandur frá Gullberastöðum, verður vonandi taminn eftir áramót

Eyrarrós með Glitrós - kindur frá mér. Allar mínar kindur - 3- eru golsóttar

Lurka hans Mads með öðru lamba sinna undan Skrauta

Krummi sigraður af svefninum

Eflaust gæti ég sagt fleira, t.d. hvað við erum yfirleitt með í matinn og svona en því nenni ég ekki. Læt þetta duga í bili.

Orð dagsins; tussi
Orðið þýðir; smápoki eða tuddakálfur.
Dæmi; varningurinn kom í tussa úr plasti. Á dögunum bar 318 tussa.

04 maí 2010

Grasið grænkar, gleði eykst

Góðan dag og gleðilegt sumar

Ég hef nú verið heldur löt að skrifa hér undanfarið enda búin að hafa nóg annað að gera - aldrei þessu vant. Vinnan (gagnavinnsluverkefni eitt lítið) hefur tekið nokkuð af tímanum, hrossin tvö nokkra tíma en flutningar og vesen þeim tengt gífurlega mikinn tíma. Alltaf skal ég gleyma því milli þess sem ég flyt hvað það er óskaplega mikið vesen. Pakka niður þeim ósköpum af drasli sem maður sankar að sér á fáránlega skömmum tíma, flytja öll ósköpin landshorna á milli með tilheyrandi kostnaði og veseni, þrífa eftir sig og þá er eftir að koma öllu helvítis ruslinu fyrir á nýja staðnum. Þetta er nú reyndar að hafast hjá okkur, lítið eftir á Hvanneyri nema búskapurinn - hænur og hross.
Kjúklingar Hr. Jörgensen

Já talandi um hross þá eignaðist ég nýtt þannig á dögunum. Mads bauðst að kaupa um það bil 10. vetra meri af félaga sínum sr. Flóka sem hann gerði og gaf mér í tilefni afmælis míns. Merina sótti ég um daginn suður í Land hérna á Hvanneyri þar sem hún hefur greinilega átt góða daga - hún er allavega fullkomlega samkeppnishæf við merarbollurnar heima í Arnarholti hvað varðar spik á síðu og lend. Tamningatryppið hún Ljóta-Blesa er öll að koma til. Alveg hætt að prjóna af stað og kemur sér þokkalega áfram þó ekki sé hún sérlega viljug. Setefnan er sett á að skila henni til eiganda síns í dag eða á morgun.

Mads fór að vitja ættingja sinna í veldi Möggu drottingar í síðustu viku en kom heim í fyrra dag. Það var allt hið besta mál nema hvað fólk var alltaf eitthvað að þvarga í mér hvaða erindi hann hefði haft í ferðinni - en það gat ég ómögulega munað. Ég var því sökuð um sinnuleysi gagnvart ástmanni mínum og annað í þeim dúr. Það kom svo upp úr kafinu þegar Mads var komin heim aftur að hann hafði bara hreint ekkert erindi út annað en það að heimsækja fólkið svo ekki skrítið að ég myndi ekki hvað hann ætlaði að gera.

Arnarholt séð í gegnum gamlan öxul

Núna sit ég yfir prófi í Gamla-Skóla. Heilir fjórir nemendur þreyta prófið og dugar því ekki minna en að bæði ég og Edda Þorvalds sitjum yfir þeim.

Sauðburður er víða hafinn. Ekki heima að vísu en það fer að líða að því með tilheyrandi nóttum í fjárhúsi og öðrum hressandi sveitastörfum.

Þetta lamb er, held ég alveg örugglega, núna gemlingur

Orð dagsins; júfferta
orðið þýðir; trjábolur eða gildur viðardrumbur. Gildvaxinn fyrirferðarmikill kvenmaður.
Dæmi; Júffertur báru uppi þakið. Þórunn Edda er nú engin júfferta.

03 apríl 2010

Án titils

Gott kvöld góðir lesendur

Ég hef ákveðið að rita hér nokkur orð í tilefni þess að ýmislegt hefur skemmtilegt gerst og Mads er að horfa á Barnaby.

Tamningar eru í fullum gangi, Blesa - eða Ljóta-Blesa eins og eigandi hennar hefur yfirleitt kallað hana - er hress og var til að mynda sérstaklega þæg í dag. Pjakkur gamli er allur að koma til en það mátti svo sannarlega því hann var latari en unglingur við uppvask fyrst eftir að hann kom. Annars er það nú helst að frétta úr hestamennskunni að við Pjakkur brugðum okkur með fríðu föruneyti upp í Lundarreykjadal á Páskaleikana 2010. Páskaleikarnir eru frjálslegt en jafnframt háalvarlegt hestamannamót með ýmiskonar sprelli. Föruneyti okkar voru Eygló Óskarsdóttir frá Krossi og hennar frækni reiðskjóti en þær gerðu það einmitt gott á mótinu - unnu titilinn
,,efnilegasti knapinn".

Blesa hressa

Árni á Skarði tók tilþrifamikið stígvélaspark á leikunum

Eygló efnileg í upphafi leika

Mads er alltaf í hænubraskinu sínu - en hann eignaðist tvö hænsn einhverntíman í fyrrahaust. Ég kíkti svo út í hænsnakofa á dögunum og fannst eitthvað vera meira þar af fuglum en ég var vön. Ég innti Mads eftir því hvað það væru eiginlega orðnir margir fuglar þarna inni en það reyndust vera um 40 kvikindi en eru þá ótaldir óklaktir ungar andarinnar Silju.

Talandi um Silju þá heimsóttum við þá Sigurðardóttur um síðustu helgi. Hún og ástmögur hennar Þórður Svavarsson eru á fullu að gera upp gamalt hús á ættaróðali hans - Ölkeldu á Snæfellsnesi. Þegar okkur bar að garði var verið að smíða stiga milli hæða sem þótt sérlega spennandi því ekki hafði verið fært upp á efri hæðina um nokkurt skeið. Við tókum að sjálfsögðu útsýnisferð um alla kofa á bænum, þáðum kaffi og átum köku.

Helga kannaði hvort nýi stiginn væri nægilega traustur

Ég hef annars undanfarna daga verið gripin miklu bakstursæði, sem er í hæsta máta óvanalegt. Eins og ég sagði frá síðast voru gerðar kleinur hér á dögunum en síðan þá hafa bæst í hópinn nokkrir rúgbrauðshleifar og slatti af flatkökum. Þetta er náttúrulega stórgott en þess getur verið langt að bíða að annar eins hamur renni á mig. En kannski er þetta nú ekki alveg yfirstaðið svo mögulega verður slett í kaniltertu fyrir ástmann minn á morgun (þegar hann sá þetta skrifað fékk hann vægt oföndunarkast og meig ofurlítið á sig af spenningi).

Rúgbrauð

Flatkökur

Stoppaðir sokkar - ekki uppáhalds verkið en ágætt þegar það er norðangarri

Núna er það bara páskahátíðin sem er að detta inn. Sökum trúleysis er ég nú ekki spennt fyrir boðskapnum en að sjálfsögðu mjög þakklát fyrir frídagana. Talandi um trú þá fór ég að velta nokkru fyrir mér í dag. Hvar eru þeir sem ekki eru í Þjóðkirkjunni grafnir? Varla í kirkjugarði - það hlýtur að stríða gegn ,,trú" þeirra? Má grafa fólk hvar sem er? - varla, fyrst það má ekki einu sinni grafa dauða rollu, strangt til tekið.... Eru þeir í grafreitum? - grafreitir eru nú ekki á hverju strái. Veit þetta einhver? Ekki ég allavega. Ég fór svona að spá í þessu því ég er nú, eins og áður kom fram, tiltölulega trúlaus og kem líklega til að drepast einhvern tíma.

Orð dagsins; Petti
Orðið þýðir; lítið svæði, eitthvað lítið s.s. bandspotti, stubbur/smástykki af einhverju
Dæmi; Túnin hans Dodda eru engin petti. Mads fékk sér svolítið flatkökupetti með sméri.

Myndir frá Ölkeldu og af páskaleikum á myndasíðu

26 mars 2010

Það blanda allir landa....

Góða kvöldið

Nú hefur aldeilis margt á dagana drifið. Bæði svona almennt og í mínu bráðspenanndi lífi. Ég segi stuttlega frá þessu.

Um síðustu hegi fór ég á heimaslóðir mínar til að aðstoða föður minn við mjaltir og bræður mína við gegningar. Það var alveg hreint ágætt, gerði ýmislegt hressandi eins og að moka skít og járna. Skrapp líka með bræður mína á opin dag á Stóra-Ármóti sem var ágætt.

Hinir eldspræku Magnús B. Jónsson landsráðunautur í nautgriparækt og Guðmundur Jóhannesson ráðunautur á Búnaðarsambandi Suðurlands létu sig sko ekki vanta á Stóra-Ármót

Merin hans Mads hún Freyja sést hér í árásarham

Þegar ég skildi við í síðasta bloggi var ég búin að vera að plana að fá hingað hross. Þau eru komin núna og það er mjög ánægjuleg. Pjakkur er að vísu ekki jafn sáttu við þetta allt, í það minnsta var hann með allra latasta móti í gær þegar ég fór á bak. Meri sótti ég svo í Arnþórsholt í gær og fékk með henni fylgdi spáný klipping og poki af fóðurbæti - ekki amalegt það. Mér sýnist það nú vera ágætisgrey en það á að vísu eftir að koma betur í ljós.



Kláraði svo að kenna staðarnemum í fóðurverkun í síðustu viku og var með próf í áfanganum núna á miðvikudaginn og fór það vel. Skríllinn sá heldur svo í verknám eftir páskana og sjást líklega ekki á Hvanneyri fyrr ein einhvern tíma í júní. Kennslu er þó ekki alveg lokið því það eru 18 stykki fjarnemar sem á eftir að klára að kenna. Besta mál.

En kennslutengt. Fór í dag í ferðaleg með sauðfjárrækt 2 (bændadeild 2) á Strandir að skoða sauðfjárbú. Fórum í heimsók í Húsavík, á Heydalsá og að Smáhömrum. Ég tók að mér að keyra í þessu ferðalagi, aðallega vegna þess að bíllinn minn er stór og rúmgóður og mér þykir gaman að keyra. Ég og mínir hressu ferðafélagar, Rúnar og Geir (+Stefán á norðurleið en Jóhann á suðurleið) ákváðum að fara dálítinn hring og keyra Arnkötludal heim. Það var alveg ágætt nema þegar við vorum rétt komin yfir hæsta punkt var trailer þversum á veginum og þurftum við því að bíða nokkra stund. Þrátt fyrir biðina náðum við á Hvanneyri á undan þeim sem fóru Hrútafjörð og Holtavörðuheiði.

Þessar krúttlegu gimbrar höfðu það notalegt í nýjum fjárhúsum á Heydalsá

Það greip mig svo gífurlegur dugnaður í gær í kjölfar áskorunar frá ástmanni mínum. Ég smellti í kleinur. Af góðmennsku buðum við svo Eygló Óskarsdóttur vínsala og nágranna okkar yfir í kaffi og kleinur og varð úr því hið ágætasta kvöld.

Sjáiði bara hvað ég er dugleg

Látum þetta gott heita í bili.

Orðdagsins; frugg
orðið þýðir; lélegt gras, myglað hey eða éljahreytingur.
Dæmi; Strandarollurnar fengu ekkert frugg. Örlítið frugg var á Arnkötludal.

ps. fleiri myndir á leið á myndasíðuna

11 mars 2010

Af gærum og gæjum

Jæja er ekki tímabært að setja hér inn nýja færslu? Ég held það.

Það hefur svo sem ekkert sérstakt átt sér stað en það er nú allt í lagi. Ég veit reyndar, vegna þessa tíðindaleysis, ekkert hvað ég ætti helst að skrifa... kannski get ég að vísu byrjað á því að greina frá því að um helgina stefnir hópur fólks á að fara í búfjárræktarferð í Skagafjörðinn. Það mun vera sögulegur fjöldi sem er að fara að þessu sinni - rúmlega 70 manns. Dagskráin er svakaleg og eflaust mun skríllinn skemmta sér ljómandi vel. Nú annað nánast jafn spennandi sem er á dagskrá þessarar helgar er það að Mads ætlar að sækja sér fleiri hænur og að því ógleymdu að Skvísa ætlar að fá sér ormahreinsun - íha.

Sit núna fyrir framan sjónvarpið með Helgu mongó að horfa á þá frómu þáttaröð ,,hvernig ég kynntist móður þinni" (Helga segist ekki vera mongó - hún sé bara að klóra sér). Þessi þáttaröð er annars dáldið skemmtileg, tekur fyrir allt þetta klassíska, ást vesen, grín og svona... Nú svo tekur við enn meira af áhugaverðu sjónvarpsefni - Elli Steinn og svo náttúrulega píurnar á Bláregnsslóð.... úff áhugaverða líf.

Annars fór ég að heimsækja strák um dagin. Hann var búinn að ræða það við mig að einhverntíma í haust að ég myndi taka fyrir hann hross og ákvað ég að skreppa og kíkja á gripinn. Strákurinn er hinn margfrægi Dúddi í Holti eða Guðmundur í Arnþórsholti eins og enginn þekkir hann. Truntan leit bærilega út og stendur til að skottast eftir henni einhverntíma við tækifæri. Talandi um truntur þá er ég líka að spekúlera í að fá hingað gamla klárinn minn um þarnæstu helgi, svona til að halda honum og mér svolítið við.

Hér sést Dúddi í heyskap síðastliðið sumar. Myndin er af vef Skessuhorns.

Jæja, tími á orð dagsins

orð dagsins; hábrókast (so.)
orðið þýðir; vera drembinn, monta sig
Dæmi; Dóri hábrókaðist yfir árangri sínum í prófunum.